Home / Fróðleikur / Sagan af eikinni frá Morat

Sagan af eikinni frá Morat

Eikin frá Morat – eða tréð sem vínheimurinn beið spenntur eftir.

(þýtt frá Le Monde, 19.1.2006)

Fallegasta tréð í Tronçais-skógi í Mið-Frakklandi, eikin frá Morat, féll fyrir hendi skógarhöggsmanna þ. 20. janúar sl. Hún var 340 ára gömul, þráðbein, börkur hennar var sléttari en sést hafði lengi og ekki til hnútar í stofninum. Hún var kennd við tjörn nokkra í skóginum, Morat-tjörnina, og hún var ein af 13 síðustu eikunum sem voru gróðursettar skv. tilskipun frá Colbert árið 1669. Hún þoldi illa ágang skordýra og storma sem tóku á hana þar sem búið var að fella svo mikið af trjám í kringum hana. Hún var boðin til sölu 20. október 2005 og það var skógrækt franska ríkisins, sem sér um þennan 10 583 ha fallegasta eikarskóg í Evrópu, sem samdi um söluna.

Tronçais-skógur er þekktur fyrir eik sem vex mjög hægt og er sérstaklega bein. Þessi eik hefur verið eftirsótt í um aldir í skipasmíði, tunnugerð og húsgagnasmíði. Um 20 tré vaxa á hverjum hektara. Það er mjög lág tala en nógu þétt fyrir þessa öðlinga. Gróðursettar eru 50 000 smáeikur á hektara þannig að grisjun er gríðarleg. Trén verða að meðaltali 40 m há, sem þýðir að þau eru 250 ár að ná fullri hæð.  Mörg tré í Tronçais-skógi eru orðin eldri en 400 ára gömul.

Það var tunnugerðarmaðurinn Sylvain frá Bordeaux sem keypti eikina frá Morat fyrir litlar 37 790 evrur. Hann fær 19 m3 af timbri úr eikinni og þar af eru 12 m3 nýtanlegir í tunnugerð, sem sagt 60 tunnur (bordelais-tunnur, 225 hl),  en timbrið, sagað niður í planka, verður fyrst að þorna í 2 ár undir berum himni.

Þegar skógarhöggsmenn felldu eikina frá Morat voru frægustu „nöfnin“ í vínheiminum viðstödd athöfnina: eigendur Château Angélus, Château Cheval Blanc, Château Latour og víngerðarmaðurinn Rolland, en einnig fulltrúar frá þekktustu vínhúsum í Kaliforníu, á Spáni, Ítalíu eða í Chile. Sylvain er löngu búinn að selja fyrirfram þessar 60 tunnur.

Skógrækt franska ríkisins vinnur að því að varðveita elstu trén í Tronçais-skóginum. Eik nokkur, kennd við Saint-Louis, konunginn vitra sem felldi dóma sína undir henni, er 400 ára en verður ekki felld. Engin eftirsjá er að henni fyrir víngerðarmennina: stofninn er fyrir löngu nagaður af skordýrum og ónothæfur í tunnugerð.

Scroll To Top