Home / Fróðleikur / Saga kampavínsins

Saga kampavínsins

Á tímum Rómverjanna.

Þá þegar var eftirsótt að vera vínbóndi í “Campania Remensins”, sem síðar varð Champagne. Jarðvegurinn góður og léttur, aðallega kalk, landslagið hagkvæmt því hlíðarnar snúa í vestur – loftslagið væntanlega líka heitara en það er í dag. Rómverjarnir komu með vínrækt með sér til Gaulverjalands, en þeir kunnu að finna bestu svæðin. Vínið var þá væntanlega mjög ljóst, úr rauðum og hvítum þrúgum, sýruríkt og sennilega sykurbætt eða kryddað.

Á Miðöldum

Fyrsti konungur Franka, Clovis, var krýndur og skýrður 496 í Reims, og Heilagur Rémi biskup sem sá um athöfnina var stór vínbóndi. Reims átti eftir að sjá 37 konunga Frakklands krýnda á 1000 árum og ætla má að Champagne vínið hafi fest sig í sessi við hirðina alla tíð vegna þess. Þegar Rómarveldið hneig svo og eftir óróatímana þegar Vandalar og Mið-Asíu flokkar ráfuðu um sveitir Frakklands, tóku munkar við vínræktinnni. Klaustur voru mörg í Champagne, rík og nátengd konungsvaldinu – sem þau sáu fyrir víni. Þá var vínið líkara því sem við þekkjum í dag, mjög ljóst og stundum með rauðum blæ (kallað þá clairet), þó miklu sýruríkara. París var þá orðin höfuðborg konunganna og stutt að flytja vínið frá Champagne. Flutningur á vínum var verulegt vandamál – þannig var til dæmis upprunið vínedik, vínið þoldi ekki flutninginn á Loire ánni…

En hvers vegna freyðandi?

Lengi vel var Champagne vínið geymt strax á flösku en ekki á tunnu, þar sem náttúruleg öndun átti sér stað – en líka oxun. Vínið varð þá freyðandi nátturulega, eða “náttútulegt slys” – gerjun í flöskunum byrjaði á haustin en hætti þegar veður fór kólnandi á veturna. Þegar fór að vora byrjaði gerjunin aftur í flöskunni – sem oftast nær sprakk! Önnur vínsvæði voru í heitara loftslagi og þekktu ekki þetta “vandamál” – sem varð að Champagne.

Dom Pérignon og goðsögnin

Dom Pérignon var uppi í lok 17. aldar, í ríku klaustri sem hét Hautvillers. Hann var einstakur víngerðamaður en hann var ekki upphafsmaður Champagne: Hann hægræddi mikið framleiðslu vínsins, en aðallega fór hann að blanda saman árgöngum og saft frá mismunandi þrúgutegundum – sem var afdrifaríkt skref í framleiðslu Kampavínsins. En þá var enn álitinn galli ef vínið var freyðandi – það er ekki fyrr en í lok 19. aldar sem freyðivínið var verulega eftirsótt sem slikt.

Vínið verður freyðandi.

1664: fyrstu heimildir um “sparkling” varðandi vín í Englandi.

1712: fyrstu heimildir um “mousseux” varðandi vín í Frakklandi.

Í lok 18. aldar, má áætla að 10% af víninu frá Champagne hafi verið freyðandi. En Napoléon á að hafa sagt um kampavínið “þú átt þetta skilið við sigurinn og þú þarft á því að halda við ósigurinn” og vínið hefur tvímælalaust verið sérstaklega vinsælt um alla Evrópu, hjá aðlinum og í hirðum konunga og keisara. Þar koma kaupmenn til sögunnar, sem frá 1800-1840 kaupa og selja kampavínið víða, það er búið að finna sterkari flöskur (í Bretlandi þar sem glerið var framleitt með kolum sem gáfu meiri hita en eldiviðurinn) og korkur kemur frá Portúgal og Spáni í staðinn fyrir trétappana. Fyrst þá er Champagne vínið orðið að því kampavíni sem við þekkjum og hefur þessa sérstöðu að vera einstakur gleðigjafi við öll tækifæri.

Scroll To Top