Home / Fróðleikur / Giovanni Manetti og Fontodi í Chianti Classico

Giovanni Manetti og Fontodi í Chianti Classico

Giovanni Manetti

Giovanni Manetti

Greve in Chianti, smábær í Toskana, er hjarta Chianti Classico héraðsins og þar í næsta nágrenni eru bestu vínhúsin, á slóð Gallo Nero, svarta hanans. Nokkrir kilómetrar fyrir sunnan Greve og líka á slóð svarta hanans er Panzano in Chianti, miðaldabær sem hefur verið byggður á hæð og er umkringdur vínekrum og ólífulundum – í allt að 400 til 500 m hæð. Þar er að finna Fontodi, einn af virtustu framleiðendum í Chianti Classico, í eigu Giovanni Manetti.

Conca d’Oro, gyllta hlíðin.
Ég var á ferð um Toskana með hóp Íslendinga akkúrat á tíma uppskeru og þrátt fyrir að allir í vínhúsunum væru uppteknir 20 klst. á sólarhring, gaf Giovanni sér tíma til að staldra við  og útskýra sína stefnu í vínrækt og víngerð. Á meðan koma kerrurnar hlaðnar þrúgum hvor á fætur annarri og fólkið sorterar bestu sangiovese þrúgur sem munu fara í Flaccianello súper-Toskana vín Fontodis.

Vínrækt hefur verið á landareigninni frá tíma Rómverjum, eins og víða í Chianti, en Manetti fjölskyldan keypti hana 1968 og á í dag 67 ha af landi. Jarðvegurinn er leirkenndur annars vegar og á flögubergi hins vegar, hæðin og staðsetningin á móti suðri og suðvestri gefa þrúgunum bestu skilyrði til að þroskast en á sama tíma þann hitamunn á milli dags og nætur sem þarf til að ná góðu jafnvægi. Þannig er hægt að rækta pinot nero (eða pinot noir) sem er sennilega eitt skemmtilegasta pinot noir vín fyrir utan Búrgundí – þótt í litlu magni sé. En kjarninn er sjálfsagt sangiovese og í Conca d’Oro dalverpinu þrífst hún einstaklega vel. Og allt er lífrænt ræktað.

Lífrænt, náttúrulega.
“ Þegar maður hefur í höndunum slíkan fjársjóð sem landareignin okkar er og þessa fegurð, er ekki hægt annað en að hafa virðingu fyrir náttúrunni allri” segir Giovanni og horfir yfir hæðótta landslagið, skógvaxið í fjarska. “Við notum ekkert eiturefni – skoðum vínviðinn vandlega, höfum margar leiðir til að gripa inn,  – en aðallega er það þannig að því heilbrigðara sem allt umhverfið er, því minna þarf að gripa inn”. Fontodi ræktar einnig Chianina-nautgripi, best fáanlega nautakjöt á Ítalíu og allt sem fellur til í víngerðinni (laufið, stilkarnir, …) er mulið og breytt í annað hvort moltu eða dýrafóður. “Allt er endurunnið hér, vatnið frá vínkjallaranum er síað vandlega áður en það fer í náttúruna aftur og lífræn úrgangsefnin fara sömu leið – ekki eru kemísk efni frá okkur í þessu heldur” bætir hann við þegar við skoðum 10 ára gamla vínkjallarann, sem varla sést frá aðkeyrslu að húsinu svo vel fellur hann til í landslaginu. “Næst á dagskrá hjá okkur er að nýta sólarorku, ekki eingöngu til að lýsa okkur upp, heldur til að gera okkur sjálfstæða í raforku – tæknin er orðin það vel þróuð að við höfum reiknað út að við getum það” bendi hann á þegar talið berst að framtíðarhorfum í víngarðinum.

Á þessum forsendum, er ekki bara vínið sem er lífrænt (og vottað í bak og fyrir), heldur einnig ólífuolían og Chianina nautið – annað væri ekki í anda Giovannis, því greinilegt er að þessi stefna er honum jafn eðlileg og að anda, það er heilrænn lífstíll en ekki eingöngu markaðssetning.

Scroll To Top