Home / Vínferðir / Ferðin til Bordeaux

Ferðin til Bordeaux

Ferðin til Bordeaux – 7.-11. september 2008

Hópurinn sem fór til Bordeaux var mátulega stór, 15 manns lögðu af stað – eða réttara sagt 14 þar sem fararstjórinn Dominique beið eftir hópnum í Bordeaux. Það minnkaði reyndar í 13 til að byrja með þar sem einn missti af lestinni þegar hann hljóp eftir samloku á lestarstöðinni Montparnasse. En sameinaði hópurinn fór út að borða fyrsta kvöldið í gamla hverfið í Bordeaux, á “Parlement des Graves”. Góður hiti var í Bordeaux, 32-33° sem þýddi að þegar loftkælingin bilaði á þessum veitingastað varð hitinn næstum óbærilegur fyrir óherta Íslendinga.

Dagskráin byrjaði morguninn eftir í sama hita (sem átti eftir að fylgja okkur alla daga) í Médoc, þar sem við vorum rétt á undan Médoc Maraþon (8000 manns hlaupa í gegnum vínþorpin og ekrur í Médoc), viða sáust merki þess. Château d’Agassac, Cantenac Brown og Branaire Ducru voru á dagskrá, mismunandi árgangar og annað vín þeirra – allt fágað og Bordeaux-legt með stíl. En bílstjórinn okkar var einstaklega lipur og keyrði með okkur um svæðið, og stoppað var við Château Margaux, Cos d’Estournel og fleiri þekkt nöfn þar sem var mikið myndað… og smakkað (berin). Hádegisverður líður seint úr minni, við áttum bókað á Lion d’Or við Arcins en Médoc, samanstaður víngerðamanna og Châteaux-eiganda og vorum frekar seinna en áttum að vera. Kokkurinn og eigandinn, franskari en frakkarnir, tók á móti okkur með nöldri – sem reyndist svo einfaldlega leikur því hann sló upp flottri veislu og kvaddi með kossi!

Annar dagurinn var tileinkaður Sauternes og sætu vínunum, svo og Graves og Pessac Léognan. Það var ótrúleg fegurð og kyrrð yfir Sauternes, mistur enn hangandi yfir hæðunum (lofar góðu fyrir árganginn!), Yquem trónaði, massívt en tignalegt. Í hvert skipti sem rútan stoppaði við vínekru, hurfu flestir úr hópnum á milli raða, sumir til að smakka, aðrir til að mynda – einhverjir hefðu ekkert haft á móti því að verða þar eftir.

Florence Cathiard, húsfrúin á Smith Haut Lafite, tekur á móti okkur í eldhúsinu heima

Florence Cathiard, húsfrúin á Smith Haut Lafite, tekur á móti okkur í eldhúsinu heima

Sérstaklega við Suduiraut, þar sem berin voru farin að taka Botrytis og voru þegar rúsinukennd. Nema stundum – þá var það frekar edik og við fengum skýringuna: lirfa hafði stungið þau snemma sumars… Toppurinn á þessum degi var samt sennilega á Smith Haut Lafite, þangað sem ferðinni var heitið eftir skemmtilega máltíð á sveitakrá (sveitakrá í Bordeaux er reyndar aðeins meira en sveitakrá). Við skoðuðum fyrst húsin og vínkjallarann, allt til fyrirmyndar og greinilega ný búið að taka í gegn með góðum fjárhæðum. Við smökkuðum fyrstu vínin og svo var okkur tilkynnt að frúin, Madame Cathiard, biði eftir okkur heima og framhaldið af smökkuninni mundi eiga sér stað heima hjá henni. Sem og varð, eftir að hún hafi sýnt okkur húsið og einkakjallara sem var upplifun útaf fyrir sig. Florence Cathiard er komin í hóp Íslandsvina, þar sem hún hreifst af landi og þjóð í júní s.l., var á ferðalagi með vinum sínum og tók gullfallegar myndir, og við spjölluðum góða stund í eldhúsi hjá henni, með glas í hendi.

St Emilion beið okkar á sunnudeginum – og bílstjórinn góði keyrði með okkur að Cheval Blanc og Petrus og stansaði góða stund við Petrus. Þetta stóra vínhús lætur lítið yfir sér, en uppskeran í ár verður nokkrum berjum fátækari þar sem flokkur Íslendinga stóðst ekki freistingunni að smakka til að tilkynna heima “ég hef smakkað Petrus 2006”.

En ferðinni var heitið til Troplong Mondot, sem hafði nokkrum dögum fyrr fengið tilkynningu um að það var tekið í 1. fl. St Emilion Grand Cru B – mörg ár af blóði og tárum fengu viðurkenningu. Við gátum ekki annað en mætt með blómavönd og hin geðuga Christine Valette gaf sér góðan tíma á þessum sunnudagsmorgni til að fara með okkur um kjallarann og ekrurnar. Einstaklega fallega staðsett hús, beint á móti St Emilion  og vínin voru hin ljúfustu .
Þar sem hitinn var enn í góðum hæðum, endaði sá tími sem við höfðum í St Emilion á kaffihúsinu við markaðstorgið, eftir skemmtilega máltíð á alvöru Bistrot í vínekru. Smá paník hjá eigandanum í byrjun, smá aðstoð frá okkur til að bera á borð en úr því var eftirminnileg máltíð með allskyns kjötvörum og ostum.

Jonathan Maltus var síðastur á lista hjá okkur. Breti, stór og mikill. Splúnkunýtt vínhús og glansandi, ókláraður vínkjallari. St Emilion vín – og ekki St Emilion vín. Hann hristir hressilega í hefðir svæðisins, býr til vín frá terroir sem er í kjarna víngerðar hans – en notar tæknina sem nýji heimurinn hefur tileinkað sér. Og fær “bolta” úr þessum terroir, mjög góð vín – sem hann selur beint, ekki í gegnum vínkaupmennina. Það var mjög fróðlegt að kynnast þessu sjónarmiði á þessu vel hefðbundnu svæði.

Château Figeac 1981 og 2000 voru borin á borð síðasta kvöldið sem við eyddum á La Tupina, allt of vinsælum stað því við þurftum að biða til kl 22 (og vel það) til að komast að! Það var þreyttur en ánægður hópur sem arkaði um götur Bordeaux síðasta kvöldið og skilaði sér heim daginn eftir í 12 gráðurnar. Eru ekki allir búnir að fá kvef?!

Scroll To Top